Lagskipt ílát, 2024
Akrýl, olíutúss, blek, vatnslitir og blýantur á pappír
42×60 cm
Verkin Lagskipt ílát eru gerð af listamanninum Kristínu Elvu Rögnvaldsdóttur. Hún er fædd 1972, starfar og býr í Reykjavík. Árið 2001 útskrifaðist hún með MA frá Konunglega listaháskólanum í Stokkhólmi, áður hafði hún útskrifast frá Myndlistar- og handíðaskóla Íslands með diplóma í skúlptúr. Hún hefur tekið þátt í sýningum og listahátíðum bæði hér heima og erlendis.
Árið 2023 hélt Kristín Elva fyrirlestur í fyrirlestraröð Listasafns Akureyrar, Þriðjudagsfyrirlestrum, í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni „Að skapa list fyrir og eftir ME-greiningu“. Í fyrirlestrinum fjallaði hún um reynslu sína af listsköpun með og án vitneskju um að vera haldin taugasjúkdómnum ME.
Verk Kristínar Elvu eru að mörgu leyti ljóðræn, með áráttukenndri endurtekningu þar sem lög ofan á lög af fíngerðum línum, formum og litum flæða á milli þess að vera fígúratíf og abstrakt verk. Í gegnum listsköpunina umbreytir Kristín Elva reynslu sinni af því að hafa verið bundin heimilinu að mestu leyti seinasta áratuginn vegna ME í innri hugleiðsluástund, heilunarferli þar sem hver lína sem strýkur pappírinn segir sögu og/eða innra samtal. Nærumhverfið og venjulegir heimilishlutir eins og krukkur, ílát og pottaplöntur eru viðfangsefnið hennar. Ástund listsköpunarinnar er jafn mikilvæg og útkoma verksins.