Lagskipt ílát, 2024
Akrýl, olíutúss, blek, vatnslitir og blýantur á pappír
42×60 cm

Verkin Lagskipt ílát eru gerð af listamanninum Kristínu Elvu Rögnvalds­dóttur. Hún er fædd 1972, starfar og býr í Reykjavík. Árið 2001 útskrifaðist hún með MA frá Konunglega lista­háskólanum í Stokkhólmi, áður hafði hún útskrifast frá Myndlistar- og handíðaskóla Íslands með diplóma í skúlptúr. Hún hefur tekið þátt í sýningum og lista­hátíðum bæði hér heima og erlendis.

Árið 2023 hélt Kristín Elva fyrirlestur í fyrirlestraröð Listasafns Akureyrar, Þriðjudags­fyrirlestrum, í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni „Að skapa list fyrir og eftir ME-greiningu“. Í fyrirlestrinum fjallaði hún um reynslu sína af listsköpun með og án vitneskju um að vera haldin tauga­sjúkdómnum ME.

Verk Kristínar Elvu eru að mörgu leyti ljóðræn, með áráttu­kenndri endur­tekningu þar sem lög ofan á lög af fíngerðum línum, formum og litum flæða á milli þess að vera fígúratíf og abstrakt verk. Í gegnum listsköpunina umbreytir Kristín Elva reynslu sinni af því að hafa verið bundin heimilinu að mestu leyti seinasta áratuginn vegna ME í innri hugleiðsluástund, heilunarferli þar sem hver lína sem strýkur pappírinn segir sögu og/eða innra samtal. Nær­umhverfið og venjulegir heimilishlutir eins og krukkur, ílát og potta­plöntur eru viðfangs­efnið hennar. Ástund list­sköpunarinnar er jafn mikilvæg og útkoma verksins.

Heimasíða Kristínar ElvuInstagram